17.2.2008 | 17:49
Þorramatur og villibráð
Lilja heimtar að fá að heyra af súgfirðingafélagsþorrablóti.. Væri ekkert mál ef ég myndi eftir kvöldinu! Og nei, ekki er það svo spennandi að ég hafi verið svo drukkin að kvöldið sé í einni móðu! Nei nei minnið mitt bara ekki betra en svo að hlutir sem gerðust fyrir viku eru einfaldlega horfnir inn í eilífðina! Ásamt hlutum sem gerðust í gær.... (aftur hefur áfengisdrykkja ekkert með málið að gera...) Ég ætti kannski að fara að hafa áhyggjur af þessu...
En bíðið nú við... Glefsur... Ég man að ég var þarna og ég man að það var gaman... fullt af fólki sem maður þekkti (sem er nú ekkert sjálfsagt á þessum súgfirðinga samkomum), fullt spjallað, fullt dansað... Ég veit ekki hversu mikið meira er hægt að segja...
Jú! Lærdómurinn sem hægt er að draga af þessu kvöldi! Maður skal hugsa sig vel og vandlega um ef maður ætlar að fara einhleypur á svona skemmtun! Af hverju? Jú því maður þarf að hafa sterk, sterk bein.
Viku fyrir blót:
S: "Já sæll Róbert, þetta er Sólveig Kristín, Guðnadóttir"
R: Já sæl
S: Ég ætlaði að fá að kaupa miða á þorrablótið
R: Já frábært! Það eru einmitt fjórir eftir, hvað viltu marga?
S: Einn
R: ...Bara einn?
S: Já einn
R: Einn já, þá eru þrír eftir...
S: Já og svo ætluðum við stelpurnar að fá að sitja saman
R: Já endilega, hvað eruð þið aftur margar
S: 13
R: 13?
S: Já, við erum 7 og allir með maka nema ég
R: Ert þú bara ein?
S: Já ég er bara ein..
R: Þannig að þið eruð 13
S: Já...
Í miðasölunni:
Miðasali 1: Hvað er nafnið
S: Sólveig, Guðnadóttir
M1: Já hvað ertu með marga miða
S: Einn
M1: bara einn?
S: Já einn
M1: Já ég sé það núna, einn miði
Miðasali 2: Þú borgar hér, hvað ertu með marga miða?
S: Einn
M2: Einn miða?
S: Já einn
M2: bara einn?
S: Já...Við borðhaldið:
Eyþór: Jæja strákar, nú skuluð þið standa upp og horfa djúpt í augu ykkar heittelskaðrar og segja "Stelpur þið eruð frábærar"
S: ....bölvað...
Svo fer maður náttúrulega ekki á svona samkomur með von um góða veiði... (nema maður sé mikið fyrir menn annarra kvenna... þá kannski)
Talandi um vonlausa veiðistaði! Ég fór á létt djamm með Sigrúnu vinkonu á föstudaginn. Skelltum okkur á Dubliners þar sem við vissum af Ásu. (alltaf slæmt þegar manni finnst maður verða að afsaka staðavalið á einhvern hátt) Urðum ægilega kátar þegar við föttuðum að kynjahlutfallið þarna inni var 1 kona á hverja 15 karla! Fengum mikla jákvæða athygli en vorum svo sem ekki mjög jákvæðar á móti.. Sigrún tilkynnti öllum sem heyra vildu að hún væri sko gift kona og vann svo í því að selja mig hinum ýmsu mönnum. Vorum lengst af að spjalla við voðalega hressa kalla af árgerð 58! Sigrún var nú alveg á því að þetta væru nú bara hressilega þroskaðir menn og að ég ætti ekki að vera svona neikvæð... Dró það nú örlítið til baka daginn eftir þegar hún fattaði að árgerð 58 á stórafmæli á þessu ári.... (Takk fyrir kvöldið Sigrún mín! Þetta var frábært!! Þó aflinn hafi verið heldur rýr..)
hmmmm gengur bara betur næst?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2008 | 18:36
Ísland er loksins orðið stórt!
Nú getum við fyrir alvöru kallað okkur fjölmenningarsamfélag! Það er farið að taka fram í fréttum þegar menn eru hvítir á hörund! Hefur hingað til talist sjálfsagt nema annað sé tekið fram! Til hamingju Ísland!
Vopnað bankarán í Lækjargötu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2008 | 04:43
Halló?! Er einhver þarna?
Jæja.. Á maður að fara að taka upp á þessari vitleysu aftur? Það er svo langt síðan ég skrifaði að ég þarf að láta fólk vita ef ég byrja að blogga aftur því engum dettur í hug að það sé eitthvað nýtt að gerast hér... Gef því nokkra daga og sé til...
Þetta er búið að vera letilegast dagur í heimi! Fór á prófloka/vísindaferðar djamm í gær. Var komin heim rétt um eitt leytið því þá gáfust vinirnir upp! Rétt þegar maður var að komast í stuð.. Engin ending í fólki! (byrjað að drekka kl 16 en samt...) Ég skrölti sem sagt heim um eitt, fannst klukkan ekki nærri því orðin nógu margt til að fara að sofa svo ég lagðist upp í sófa undir sæng og horfði á póker í sjónvarpinu! Það kemur kannski ekki mörgum á óvart en ég sofnaði yfir því.. vaknaði um hádegið, rétt um það leyti sem Dr. Phil laugardagsmaraþonið byrjaði (ennþá kveikt á sjónvarpinu) og fór að horfa á það... Reis upp úr sófanum um tvöleitið til að fara á klósett og taka á móti pizzu og lagðist svo aftur.. Er eiginlega bara búin að vera hér nema ég hef rétt staðið upp til að sækja mér vatn í fótabað og poppa! Ahhhhh dagurinn eftir próf! Vel varið... (svona þannig)
En! Ég var semsagt að klára próf í gær! Verkleg medicine! Gekk alveg ágætlega þrátt fyrir mikið stress og minnisleysi í gömlu konunni... Þessa helgi eru því mikil tímamót! Búin á medicine og þá tekur kirurgian við! Fyrir þá sem kunna ekki svona mumbo jumbo (flestallir nema læknar og nemar, ég allavega vissi ekkert hvað þetta var fyrr en í fyrra) þá er ég semsagt búin með lyflæknisfræðina (J.D í scrubs) og er á leið í skurðlæknisfræði (Turk í scrubs)! Ægileg spenna yfir því! Byrja á þvagfæraskurðdeild! Hlakka mikið til! Nú þarf ég bara að taka smá tíma á morgun í að rifja upp anatomiu blöðruhálskirtilsins!
Reyndar er það alveg með ólíkindum hvað dagurinn í dag var rólegur svona miðað við hversu langur "to do" listinn er orðinn.. ægilega mikið sem safnast upp í svona prófatíð.. fyrst og fremst á dagskrá er tiltekt! Athyglissjúku kisunni minni hefur tekist að láta stofuna mína líta út eins og nýfallinn snjór liggi yfir öllu.. nema persónulega finnst mér þægilegra að hafa snjóflygsur á augnhárunum en kattahár... stefnan er semsagt tekin á allsherjar viðrun á morgun... ef ég nenni...
Nú er fjórða vika frænkuátaks nýja ársins að klárast, stigin mín varla yfir 20 samtals og það verður ólíklegra með hverri vikunni að ég muni koma til með að komast í kjólinn sem ég ætlaði að passa í um páskana... Ekki nema kannski ef maður fer að kikka inn núna.. ég ætlaði að kíkja í leikfimi í dag en þegar ég fór á heimasíðuna til að tékka á opnunartímanum þá var þar klausa um að þar væri lokað vegna vatnsskemmda í dag... típískt... og ekki nenni ég að labbba um í frostinu og kuldanum! opnaði út í smá stund og hélt ég myndi missa tærnar...
En jæja.. þetta er orðið langt og leiðinlegt og klukkan er ekki nærri því jafnmargt og hún virðist vera! í alvöru! þetta er bilun í tölvunni! En ég er alla vega farin í háttinn!
Góða nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2007 | 03:20
Komin aftur til lifenda?
Æ varla.. Maður er rétt skriðinn upp úr prófum þegar maður grefur sig í vinnu og partýundirbúning! Árshátíðir, undaneldispartý, St. Patricksday partý, Gæsapartý og þriðjudagar! Brjálað að gera í djamminu! Svo mikið að ég hef varla tíma til að vinna! Samt held ég áfram að taka á mig fleiri og fleiri vaktir og fæ aldrei nóg.. Kemst svo alltaf að því eftir á að ég myndi mikið frekar vera í fríi, að kvöldvaktir eru verulega slæmar fyrir félagslífið svo ekki sé minnst á alla deitmöguleika og að mikil fjarvera mín er mjög slæm fyrir geðheilsu kattarins (farin að hegða sér mjög undarlega svo ekki sé meira sagt)! Það er svo brjálað að gera hjá mér í vinnu og félagslífi að ég hef ekki einu sinni náð að klára að horfa á Heroes!!! Eins og það er nú orðið spennandi! Algerlega dottin úr venjulegri sjónvarpsdagskrá.. þetta er mjög óvenjulegt fyrir mig..
En annars er allt gott að frétta af okkur Sóldísi. Hún kúrir núna í fjarstýringakörfunni upp í hillu, alsæl eftir að hafa tætt í sig eldhúsrúllu, starað í góða stund á Jak og Daxter og nagað olnbogann á mér þar til þolinmæðin mín brast... Ég var að vinna í kvöld, kom heim, skellti vinum í tækið og browsaði netið þar til ég endaði hér.. Er svo að fara í háttinn þar sem ég er að vonast til að ná einhverjum í lunch date á morgun.. Það er víst ekki hægt nema maður sé vakandi... Stjörnuspáin mín talar um að mér verði hafnað í dag.. Þarf þess vegna kannski ekkert að hafa svo miklar áhyggjur af því að vakna... Hmm...
Jæja Lilja! Nú geturðu sett inn athugasemdir!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.1.2007 | 14:02
Sæktu boltann!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2007 | 14:01
Leigubílar
Ég tek stundum leigubíl. Frekar oft undanfarið því ég er iðulega ekki búin að vinna fyrr en strætó er hættur að ganga og það er svo mikið myrkur úti á kvöldin og það tekur mig 40 mínútur að labba heim og Hrafnista borgar ef maður fer svona seint heim og þess vegna tek ég leigubíl. Tek líka stundum leigubíl í vinnuna ef ég er sein eða það er mikill snjór úti. Það er ótrúlegt hvað leigubílstjórar eru sumir hverjir óforskammaðir. Sumir eru ægilega fínir, þeir eru mjög misjafnir, en sumir eru... Ég bíð yfirleitt við dyrnar þegar þeir mæta og hleyp strax út. Samt virðist þeim einhvern vegin hafa takast að koma mælinum upp í 550 kall áður en ég er komin inn í bíl. Startgjaldið er 490 hef ég tekið eftir hjá þessum góðu. Það er eins og þeir kveiki á mælinum á leiðinni inn bílastæðið. Svo er alveg ótrúlega misjafnt hvaða leið þeir taka. Ég er að borga allt frá 890 kr upp í 1200 kr fyrir sömu ferðina, á sama taxta! En það sló nú einn allt út um daginn! Hann slökkti á mælinum á leið inn bílastæðið heima því það var komið í sléttar 1000 kr. (Hefði kannski átt tíkall eftir). En svo spurði hann "ætlarðu kannski að láta skrifa þetta?" "Ehh já." "Nú! Þá kveiki ég aftur!!!!!" Svo kveikti kallinn bara aftur á mælinum meðan hann dundaði sér við að skrifa þá ítarlegustu kvittun sem nokkur leigubílsstjóri hefur skrifað að mér vitandi, rétti mér þetta svo til að skrifa undir og þá loksins slökkti hann, í 1130 kr!!!!! Mér fannst þetta nú frekar mikið lélegt! Hvað kemur það honum við hver borgar ferðina.. Usss! En þessir gæjar eru nú margir að græða um 20-100 kr bara á því að kveikja ógurlega snemma á mælinum. Og það safnast nú saman yfir daginn! Er ekki einhver regla sem segir að þeir eigi ekki að kveikja fyrr en fólk er komið að eða inn í bílinn?! Kyle segir að þegar hann tekur bíl í útlöndunum þá biður hann þá alltaf um að núllstilla mælinn ef þeir eru búnir að starta honum og ef þeir neita þá labbar hann út og pantar annan. Ohh ætli maður yrði ekki bara settur á svarta listann hjá leigubílunum ef maður reyndi eitthvað svoleiðis...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 03:34
If cuddling is the best part he´s not doing it right!
Mér finnst þetta vera ein mesta eðalsetning sem heyrst hefur í sjónvarpi! (og pant ekki fá neinar leiðréttingar, mér er alveg sama hvort þetta sé orðrétt eða ekki) Hún græðir náttúrulega nokkuð mörg stig á því að það var hann Logan minn sem sagði þetta (Veronica Mars). Ég var einhvern tíma með þetta sem personal message á msn og það voru fáránlega margir sem voru ekki að fatta meininguna. Getur svo sem vel verið að þetta sé svona "you had to be there" dæmi. Fyrir þá sem ekki fatta þá er verið að tala um kynlíf og það er ekki verið að tala um að sleppa kúrinu, bara að ef það er besti hlutinn í ferlinu þá sé gæinn ekki að standa sig í hinu dótinu. Æ það er bara bæði betra...
Ég á ægilega sæta litla kisu. Ofsaleg dúlla eins og er (sefur í fanginu á mér) en getur verið major pain in the buttocs! Það eru til dæmis yfirleitt mun fleiri hlutir dreifðir um öll gólf þegar ég kem heim eftir skóla eða vinnu eða þegar ég bara vakna á morgnanna heldur en voru þar þegar ég fór út eða sofnaði, hún er algerlega á móti því að læra að hún á ekki að vaða á skítugum loppum uppi um öll borð, rúmið mitt er alltaf fullt af sandi og henni finnst ekkert skemmtilegra en að leika sér að klósettpappír og eyrnapinnum.. tættur pappír og bómull og beiglaðir pinnar út um allt hús! Hún er búin að læra í hvaða skúffu ég geymi pinnana, laumast ofan í hana við hvert tækifæri, opnar boxið sem þeir eru í og nælir sér í einn! Hún er líka fáránlega hrifin af vatni svona verandi kisa... Alltaf þegar ég er í baði þá stekkur hún upp á brúnina og horfir dáleidd ofan í vatnið. Svo dýfir hún loppunni ofan í og sleikir hana. Yfirleitt labbar hún út á bringuna á mér og niður magann og er komin hálf ofan í, eltandi froðuna. Ég má líka hvergi skilja eftir vatn í dalli þá er hún farin að skvetta eða vaða. Rugludallur. Snúsið er samt verst! Ég er yfirleitt með 2 vekjaraklukkur stilltar með 10 mínútna millibili. Hún vaknar yfirleitt við fyrstu hringingu, stekkur á fætur malandi og fer að mjálma og nudda sér upp við andlitið á mér. Ekki eins þægilegt og maður skyldi ætla þar sem ég enda yfirleitt alltaf með veiðihár upp í nefinu (kitlar alveg fáránlega mikið) eða rass í feisinu... Ég endist því sjaldnast allar 10 mínúturnar og hef þess vegna verið voða stundvís undanfarið, alltaf vöknuð á undan áætlun..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2006 | 22:57
Gleðileg Jól!
Gleðileg Jól öll sömul! Ég er akkúrat núna komin í kaffi til ömmu. Það er hefðin, þegar maður er búinn í messunni, að borða, opna pakkana 4 og jólakortin þá er drifið niðreftir til ömmu og étið meira! Nammi!!! En núna var verið að kalla á mig í kökur og heitt súkkulaði. Hafið það gott um jólin!!
Sólveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2006 | 14:22
Partýhelgin mikla!
Jæja! Þetta er nú aldeilis búið að vera stuð! Afi Einar varð 80 ára í gær og í því tilefni komu öll hans börn, barnabörn og barnabarnabörn til Suðureyrar. Barnabarnabörnin eru nú enn sem komið er bara 3 og það eru systur mínar sem hafa verið að framleiða þau hingað til. Það var haldið svaka partý á laugarskvöldið í Talisman, nýja sjávarréttaveitingahúsinu í Suðurveri. Mjög flottur salur og fínn hittingsstaður. Svo var kjúklingaveisla hjá ömmu á sunnudeginum. Æðislega gott en ruglaði fólk pínu í ríminu. Var mikið um að fólk óskaði hvort öðru gleðilegs nýs árs. Sem er nú ekki furðulegt því við hittumst nú yfirleitt bara um jól og nýárskjúklingaveislan hennar ömmu er nú víðfræg! Og svo var skírn á mánudaginn! Ævar og Thitikan skírðu litlu ægilega sætu dóttur sína Monu Marínu! Og héldu svo einhverja þá alstærstu veislu sem ég hef séð! Veislan var haldin í Talisman og þau voru örugglega með mat fyrir svona 200 manns í viðbót! En alveg allsvakalega góður matur og það veltu allir þaðan út.
Barnabörnin voru nú í enn meira stuði en börnin því þau héldu partí á föstudags, laugardags og mánudagskvöld! Rosalega gaman að sitja með Arnþóri, Arnari, Elvari Atla, Árna, Þórunni Gyðu, Hildi Sólveigu og fleirum og spjalla og syngja. Yfirleitt var gítarinn á lofti. Mikið sungið. Það urðu nú allir hálf kindarlegir þegar við vorum "böstuð" í miðju "Allir elska alla". Tókum það nokkrum sinnum upp á húmorinn, þetta er eitthvað sem lifir í minningunni. Var stanslaust sungið í gamla daga þó það væru margir tugir manna í herberginu. Þetta er sem sagt vísa, sem væri gaman að vita hver bjó til, sem fer á þessa leið "Einar, elsku besti Einar, allir elska Einar og allir syngja með!" (tók Einar því það eru svo margir svoleiðis í ættinni). Þetta er svo sungið um alla. Það koma allir mjög kátir og elskaðir úr mínum fjölskyldupartíum skal ég segja ykkur. Sjálfstraustbúst aldarinnar að kíkja á gott ættarmót... En alla vega þá vorum við í miðju slíku lagi þegar Elvar frændi gengur inn á okkur og ég held svei mér þá að allir hafi roðnað.. Misstum aðeins kúlið við þetta..
Núna er ballið semsagt búið.. Fólk er farið að tínast heim á leið. Hafrún og Hildur eru farnar, Elvar Atli, Emma og Ameríkufólkið fer í dag en Svíarnir og Sólveig verða eitthvað lengur! Ég nenni ekki heim strax... Ætla bara að vera hérna fram undir helgi.. En ekki yfir helgina því ég er að fara á Sálarball með gömlu súgfirsku vinkonunum á laugardaginn. Ég, Sigrún, Hallgerður, Jófríður, Elsa og Alda (og kannski fleiri) á leiðinni á ball saman... Það eru nú eitthvað mörg mörg ár síðan það gerðist síðast...
Ég er búin að fá mér kisu! Búin að eiga hana í næstum tvær vikur! Hún er ægilega sæt og heitir Sóldís í höfuðið á gömlu kisunni minni henni Vigdísi og mér! (EGÓ) Ég skelli inn mynd af henni við tækifæri! Hún kom með vestur og er alveg að slá í gegn hér! Finnst öllum hún svo mikið rassgat! Sjáum samt til hversu lengi það endist.. Krúttleikinn á það til að hverfa með aldrinum... Núna er hún í pössun á Ísafirði.. Róbert skrapp úr bænum og þá nýtti Guðný Erla tækifærið og fékk kisuna lánaða... Hún fékk að gista hjá Elvu Rún og Guðna Rafni í nótt. Svo ætlum við að kíkja í heimsókn til Einars og kynna hana fyrir Soldán! Einari langar til að sjá hvernig Soldán bregst við henni... Við vonum að hann líkist sjálfum sér og verði sallarólegur. Þetta er ansi stór hundur og lítil kisa... Amma vildi líka fá hana í heimsókn svo það verður nóg að gera hjá okkur á næstunni...
En nú er ég búin að tala allt of mikið... Þetta er orðin frekar löng færsla.. Það er svona þegar maður hefur eitthvað að segja! Ætli ég verði ekki að færa mig yfir á dýraland.is núna.. Héðan í frá verður líklegast ekkert sagt nema sögur af kettinum!
Mjá! Sólveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.10.2006 | 20:18
Þriðjudagur...
Ég get svo svarið það að síðasta gestabókarfærslan var 3. ágúst!!!!!
Ég er búin að vera frekar bissí í dag.. Skóli, klipping, hittingur og bíó... og varla komið kvöld! Fór og lét klippa hárið í dag.. var nú svo sem ekki mikið klippt, ég var of mikil skræfa til að láta taka síða hárið mitt af.. Lét lita það dökkt í staðinn! Svona frekar dökkt.. soldið rautt.. (hlakka til að sjá hvað mamma segir við því!) Mér finnst það svaka flott! Dregur þvílíkt fram bláa augnlitinn (og augun mín eru sko venjulega grá!). Svo skellti hún í mig nokkrum liðum svona að gamni (bara með sléttujárninu, ekkert fast!) og endaði dæmið á plokkun og litun. Svo ég kom svaka pæja úr klippingu! Þá fór ég og hitti Sigrúnu og Ásu. Við vorum búnar að plana að kíkja í bíó kl 5:30. Þá kemst maður nefnilega í bíó á hálfvirði! "Eingöngu" 450 kall! (Já, bíómiðinn er í alvörunni farinn að kosta 900 krónur!!!!!). Við röltum um bæinn í svona hálftíma þangað til þeir opnuðu bíóið og við gátum komist inn í hlýjuna.. Þar hittum við Hjalta og fórum á "The devil wears Prada". Hún var alveg ágæt. Hægt að hlæja að henni og Meryl Streep alveg ægilega góð að vanda. Rosalega flott!
Þetta var voða fínt og allir í hálfgerðri vímu þegar við komum út enda sátum við í hárlakksskýji! (það þarf nefnilega soldið mikið hárlakk til að hárið mitt sem Jóhanna María klippari segir að nái alveg í topp 10 sléttustu hár í heimi haldist í krullum). Stuð..
En nú þarf ég að fara að læra og þrífa lök! Lilja ætlar nefnilega að kíkja í heimsókn um helgina og það er ekki eins og ég sitji á miklum birgðum af hreinum lökum og sængurfötum... Og svo er ég ekki ennþá búin að finna kassann með handklæðunum þannig að ég er ennþá að nota spítalahandklæðin sem dönsku hjúkkurnar skildu eftir og þau eru ekkert of mörg þannig að ég þarf víst að þvo svoleiðis líka.. ég er alltof löt til að reyna enn einu sinni að finna kassann...
En þetta ætti að vera stuð! Við sitjum hér tvær saman og þömbum herbalife... (Einar er orðinn alveg svaka duglegur að selja). Hmm vonandi á hún annað bragð en ég og þá getum við skipst á! Ji! Nú er ég orðin spennt!
En Bless...
Sólveig
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)